Wednesday, October 31, 2012


Ást

Til að geta elskað aðra verðum við fyrst að elska okkur sjálf. Þá erum við ekki að tala um “sjálfselsku” og “eigingirni”, því það er sjálfsmiðað þar sem allt snýst um viðkomandi einstakling. Heldur erum við að tala um að bera virðingu fyrir okkur sjálfum. Með því að elska okkur eins og við erum, þá fyrst erum við orðin hæf til að sýna öðrum ást okkar.   

Ástin er oft táknuð með mynd af hjartanu. Hjartað er kjarni mannslíkamans. Þess vegna er kjarni manneskjunnar oft táknaður með mynd af hjarta. Ást er lífskjarni manneskjunnar. Til að hægt sé að nálgast hamingjuna þá er ást nauðsynleg. Allir þurfa á ást að halda. Þiggjum og gefum ást!

All you need is love.
Bítlarnir

Ástin og í raun allt annað birtist þannig að ef við tökum við ást þá gefum við ást. Ef við getum ekki tekið við ást þá getum við ekki gefið ást. Við getum æft okkur í því að gefa og þiggja ást og í raun getum við æft margt annað bara ef við erum meðvituð um að æfa okkur í því þangað til það verður ósjálfrátt í fari okkar.  

Gerðu venjulega hluti með óvenjumikilli ást.
                                                                                                                             Móðir Teresa 

Gefa og þiggja óskilyrta ást. Raunveruleg ást er ávallt óskilyrt, sem þýðir að ástin er ekki gefin með væntingum um að eitthvað sé gefið til baka eða gert fyrir þann sem gefur ástina. Það er engin krafa til þiggjanda ástarinnar frá gefanda ástarinnar. Gefandinn einfaldlega gefur ást, en krefst einskis til baka þó oft geti ástin verið endurgoldin með ást eða á einhvern annann hátt. 

Reynt  hefur verið að gera ástinni skil í óteljandi verkum skálda og listamanna í gegnum tíðina.   Alltaf þegar ástinni er ekki leyft að ráða för þá endar það með óhamingju og jafnvel ógæfu elskendanna. Dæmi er hægt að taka úr sögum á borð við Tristan og Ísold og Rómeó og Júlíu.   Ást fólks er ást fólks, enginn hefur rétt til að sundra ástföngnu fólki. Það er ekki í mannlegum mætti að hafa áhrif á skilyrðislausa ást. Ást og hamingja haldast oft í hendur. Ein besta leiðin til að gefa ást og njóta ástar er gagnkvæm umhyggja. Það er, að njóta umhyggju og gefa af sér umhyggju. Hamingjan kemur í gegnum ást; ást á ástvinum sínum, ást á mannkyninu og ást á lífinu og tilverunni. Það að elska að vera til og gefa af sér til tilverunnar er ein mesta ástin!


Saturday, October 27, 2012



Biðjum um vægð gegn jarðskjálftum á Íslandi

Sameinumst í góðverki vegna yfirvofandi jarðskjálfta á landinu okkar góða. Sameinumst, hver í sínu lagi, í bæn klukkan 20:00 á hverju kvöldi þar til "áhættuástandi" lýkur. Setjumst niður hvar sem við erum stödd og biðjumst fyrir í 1-10 mínútur.

Þar sem hópar eru samankomnir, á hvaða stað eða tíma sem er, þá væri stórkostlegt að taka stutta stund, loka augunum og biðja sameiginlega eða hver fyrir sig í huganum.

Dæmi um bændir geta verið:

1. "Góða móðir jörð, ég þakka þér fyrir gjafir þínar; vistarveru okkar jarðarbúa, heimila okkar sem gerð eru úr afurðum jarðarinnar, fatnaðar okkar sem gerður er úr afurðum þínum og/eða úr því sem lifandi er og nærist á næringu frá þér og næringarafurðum okkar allra sem unnin eru úr næringarríki þínu. Við biðjum þig að þyrma okkur þannig að sem minnskur jarðskjálftaskaði verði á landinu okkar fallega, Íslandi. Amen."

2. "Góða almætti, fyrirgef okkar allar syndir okkar og lát ekki skjálfta hræða okkur og börnin okkar. Þyrm okkur og eignum okkar." Amen.

3. "Góði Guð, leið okkur heil, og hélst frá, náttúruhamförum á Íslandi. Amen."


Amen þýðir "megi svo verða" sem þýðir að við förum þess á leit við Guð að við séum bænheyrð."

Með ósk um að við göngum öll á Guðs vegum, að ljós hans umvefji okkur öll, og allt sem lifandi er, á landinu okkar góða.  

Wednesday, October 24, 2012


Hvernig er hægt að æfa sig í að sjá og heyra Guð?

Með bænum, hugleiðslum og "samveru" við Guð.

Bænir:

Biðja Guð um leiðsögn í lífinu, biðja um að verkefni leysist á sem bestann hátt, biðja fyrir vinum og fjölskyldu.

Hugleiðslur:

Til eru margar gerðir af hugleiðslu en hugleiðslur miða að því að kyrra hugann, finna innri ró, finna sjálfa/nn sig og tengingu við almættið, það sem er og við erum öll hluti af.

Hægt er að læra hugleiðslur víða:

Kristna íhugun / kyrrðarbæn er hægt að læra gjaldfrítt. Sjá heimasíðuna www.kristinihugun.is

Raja jóga hugleiðslu er hægt að læra gjaldfrítt. Sjá heimasíðuna Bhrama Kumaris Lótushúss www.lotushus.is

Innhverfa íhugun er hægt að læra gegn námskeiðsgjaldi. Sjá heimasíðuna www.ihugun.is

Allar ofangreindar íhugunar/hugleiðsluaðferðir eru viðhafðar sitjandi í stól í hefðbundnum fötum en einnig er hægt að hugleiða í gegnum jógaiðkun, til dæmis Kundalini jóga, og þá á dýnum á gólfi í jógafötum eða þægilegum fötum. Hægt er að læra þær jógahugleiðsluaðferðir m.a. hjá Andartaki, www.andartak.is og hjá Jógasetriwww.jogasetrid.is

Bænir og hugleiðslur eru leiðir til að dýpka samveru við Guð. Samvera við Guð þýðir að kærleikur, virðing og traust ríkir á milli manneskju og Guðs. Við manneskjurnar getum þannig leitað til Guðs sem vinar okkar og   lífsgjafa okkar og því oftar sem við eigum á þann hátt samband við Guð því sterkari verður vináttan og traustið þar á milli. Þetta er eins og með okkur manneskjurnar, við verðum að þekkjast til að vinátta og traust ríki og því meira sem við þekkjum hvort annað því dýpri vinátta og kærleikur verður til staðar og því meira traust verður í vináttusambandinu.

Sunday, October 21, 2012


Boðskapur til heimsins um heilun heimsins


Kæra fólk heimsins,

Vinsamlega hlustið - við þurfum að lækna heiminn. Við þurfum að vera góð hvert við annað og lækna hvort annað.

Prestar, græðarar; heilarar og læknar af öllum tegundum og aðrir sem trúa, ég bið ykkur að stíga fram og hjálpa öðrum að skilja Guð, til að skilja hvað hann hefur verið að reyna að segja okkur í gegnum aldirnar. Biðjið fólk að sjá og heyra orð hans, leiðbeinið því svo það skilji merkingu orða hans - notið tungumál almennings, tungumál sem fólk skilur - útskýrið ritningar Guðs svo að allir, líka aldraðir og börn, skilji þau.

Við skulum vinna að friði á jörðu og að samfélagi okkar allra sem himneskra vera.
Vinsamlega hlustið á þessi orð og bregðast við þeim.

Í nafni Drottins,

AMEN

Friday, October 19, 2012


Gildin

Gildin í lífinu hjálpa hverjum og einum við að hafa viðmið til að fara sem best í gegnum lífið. 
  
      Hægt er að skrifa niður gildin sín og síðan ef á þarf að halda þá kíkja á gildin áður en ákvörðun er tekin um ýmislegt. Skoða sem sagt hvort það sem býðst að gera, framkvæma, samræmist gildum manns og taka afstöðu til samræmis við það.

Gildin í kringum mann

Hvernig getum við unnið með gildi? Fjölskyldan, skólahópurinn eða vinnuhópurinn getur sest niður saman og hver og einn skrifar niður á litla miða sín gildi.   Hægt er að taka fyrir eitt gildi í einu. Síðan les hver og einn upp það sem hann skrifaði, eitt gildi í einu, þetta gengur hring eftir hring þangað til búið er að lesa upp alla miðana. Hægt er að taka þetta saman og búa til sína “heiðarleika” setningu og svo má áfram telja. Þannig verða til „Gildi fjölskyldunnar, skólahópsins eða vinnuhópsins “ sem síðan væri hægt að setja upp á blað, prenta út og setja upp á vegg eða bara á ísskápinn.

Hér fyrir neðan sjáum við 10 efstu gildi, efst það stigahæsta, Þjóðfundarins í Laugardalshöll, www.thjodfundur2009.is,  sem haldinn var í nóvember 2009 í Laugardalshöllinni í Reykjavík.             


  1. Heiðarleiki
  2. Virðing
  3. Réttlæti
  4. Jafnrétti
  5. Frelsi
  6. Kærleikur
  7. Ábyrgð
  8. Fjölskyldan
  9. Lýðræði
  10. Jöfnuður
Þeir sem stóðu að Þjóðfundinum 2009 tengdu 12 stigahæstu gildin við 12 mánuði ársins til að ýta undir notkun gildanna í samfélaginu.   

Heiðarleiki – gildi janúarmánaðar

Virðing – gildi febrúarmánuðar

Réttlæti – gildi marsmánaðar

Jafnrétti – gildi aprílmánaðar

Frelsi – gildi maímánaðar

Kærleikur – gildi júnímánaðar

Ábyrgð – gildi júlímánaðar

Fjölskyldan – gildi ágústmánaðar

Lýðræði – gildi septembermánaðar

Jöfnuður – gildi októbermánaðar 

Sjálfbærni – gildi nóvembermánaðar

Traust – gildi desembermánaðar

Gildin voru síðan svo skemmtilega skilgreind af Þjóðkirkjunni en hægt er að skoða þær skilgreiningar á vef Þjóðkirkjunnar,www.tru.is 



Gildi Þjóðfundar um menntamál

Gleði – virðing – sköpun

eru gildin þrjú sem komu fram sem lykilgildi á þjóðfundinum  um menntamál, www.menntafundur.ning.com, sem haldinn var í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, við Stakkahlíð í Reykjavík, í febrúar 2010.

Ef til staðar er gleði, virðing fyrir sjálfum sér og öðrum sem og farvegur til sköpunar þá gengur lífið mikið betur fyrir sig!



Thursday, October 18, 2012


Dyggðirnar sjö


Eins og þær eru þekktar og notaðar á Íslandi


1.       Viska
2.       Hófstilling (stilla öllu í hóf)
3.       Hreysti (hugrekki)
4.       Réttlæti
5.       Trú
6.       Von
7.       Kærleikur

Kærleikurinn er mikilvægastur dyggðanna sjö því hann er grunnurinn að því sem við erum. Að gefa af sér til annarra er það mikilvægasta sem hver og einn einstaklingur getur gert. Auðvitað þarf hver og einn ekki síður að hugsa um sjálfan sig og að sjá sér farborða og rækta sjálfan sig til að getað hjálpað öðrum.  

Áður voru dyggðir þær fjóru fyrstu en síðan bættust við kristnu dyggðirnar; trú, von og kærleikur.

Þórunn Valdimarsdóttir tók saman dyggðirnar sjö að fornu og nýju í tilraun sinni til að skýra úr þróun dyggðanna.  Við skulum líta á samantekt hennar og skilgreiningu:  Dyggðir eru bæði í heimspekilegum og trúarlegum skilningi eiginleikar sem menn hafa trúað að hægt væri að tileinka sér og jafnvel rækta og efla þar með vellíðunarþátt lífsins á varanlegan hátt. Þetta á jafnt við um fornu dyggðirnar sjö: visku, hófstillingu, hugrekki, réttlæti, trú, von og kærleika og nútímadyggðirnar sjö: hreinskilni, dugnað, heilsu, heiðarleika, jákvæðni, traust, vináttu/fjölskyldu.   Ástundun samtímadyggða kemur í veg fyrir vandræði á vegi lífsins og eykur vellíðan.   Tvær nýju dyggðanna eru trúarlegar eða tilfinningalegar, jákvæðnin og traustið, hinar tengjast atferli.   Atferlisdyggðirnar mynda öruggan ramma um lífið, veita heilbrigð skilyrði, koma í veg fyrir árekstra og veita því vellíðan, því er ekki hægt að neita þegar venjulegt samtímafólk á í hlut.   Það er jú þessvegna sem þetta eru dyggðir!   

Tuesday, October 16, 2012


Orðin sem Guð boðaði, sendi okkur, sem leiðsögn í lífi okkar. Hann ætlast til þess að við við meðtökum þau með augum okkar og eyrum, sjáum þau og hlustum á þau, því hann sendi okkur þessi lærdómsorð af einskærri ást sinni til okkar. 

Hvernig getum við sem best aðlagað líf okkar að þeim? 

Í Efri línunni eru boðorðin eins og þau birtast í biblíunni.
Í neðri línunni er leitast við að færa þau orð í nútímalegra horf.


Boðorðin 10

1. Ég er Drottinn, Guð þinn, þú skal ekki aðra guði hafa.
1. Gerðu upp við hjáguðina og lifðu fyrir og í kærleika Guðs.

2. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma.
2. Notaðu fúslega nafn Guðs og biddu um styrk hans – en til góðra verka.

3. Halda skaltu hvíldardaginn heilagan.
3. Unntu þér reglulegrar hvíldar og tíma til andlegrar íhugunar.

4. Heiðra skaltu föður þinn og móður.
4. Auðsýndu foreldrum þínum virðingu og kærleika. Láttu börnin þín njóta þess sama.

5. Þú skalt ekki mann deyða.
5. Verndaðu lífið og hlúðu að því í öllum myndum.

6. Þú skalt ekki drýgja hór.
6.
Vertu maka þínum trú/r.

7. Þú skalt ekki stela.
7. Berðu virðingu fyrir eigum og réttindum annarra.

8. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
8. Vertu áreiðanleg/ur í hugsunum, orðum og verkum. Efndu loforð þín og baktalaðu engan.

9. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns.
9. Berstu gegn öfund og löngun til að eignast alla hluti.

10. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þjón, þernu, fénað né nokkuð það sem náungi þinn á.
10.
Samfagnaðu meðbróður þínum þegar honum vegnar vel í lífinu.

Ofangreindar nýjar skilgreiningar eru af vefnum http://www.tru.is  

Hægt er að prenta út boðorðin og hengja á ísskápinn, setja í ramma og hengja upp eða setja á annann þann stað sem er aðgengilegur svo hægt sé að líta á þau við og við á meðan verið er að læra þau og gera þau meðvituð í lífi okkar! 

Sunday, October 14, 2012


Hvað er lífið okkar?

Í síðustu kvöldmáltíð Jesús Krists með lærisveinum sínum þá brýtur Jesús brauðið sem hann er með niður og bíður lærisveinunum að neyta þess, sem líkama síns.

Þarna var Jesús að bjóða þeim að borða næringu sem kom frá jörðinni, kornmeti jarðar, en jörðin er í raun líkami Guðs og þar með líkami Jesús eins og hann orðar það hér fyrir ofan.

Þessi athöfn Jesús Krists og þessi áþreifanlega næring, brauðið, er táknuð í altarisgöngum í kristnum kirkjum þegar kirkjugestum er boðin obláta, tákn brauðsins, til að setja í munn sinn.

Eftir að hafa boðið lærisveinum brauð lífsins - líkama krists, þá bauð hann þeim að drekka úr bikar sínum og sagði við þá að það væri blóð sitt. Þarna er um að ræða blóð Guðs, sem táknrænt er sett fram sem blóð í líkama Krists. En allt sem rennur, vatn, blóðið í æðum okkar, er tákn um blóðs Krists. Blóð Krists er þannig vatn jarðar, vatnið í jörðinni, það sem flýtur, flæðir og hreyfist. Vatnið er óáþreifanlegt þó við getum snert það þá "höldum við því ekki" í þeim skilningi, heldur rennur það á milli fingra okkar.

Hvoru tveggja sem Jesús Kristur gaf lærisveinum sínum með þessum táknræna hætti er nauðsynlegt lífi okkar; bæði áþreifanlega brauðið sem jörðin gefur og óáþreifanlega vatnið sem er okkur lífsnauðsynlegt. Þetta er okkar líkamsnæring því ef við hefðum ekki hvorutveggja gætum við ekki lifað.

Ofangreind skilgreining er okkur nauðsynleg til að lifa, svo að líkami okkar lifi en til þess að lifa innihaldslegu góðu lífi þá þurfum við einnig andlega næringu. Því við getum í raun og veru ekki lifað góðu lífi án andlegrar næringar. Við býðst að nærast á skriflegum áþreifanlegum orðum Guðs sem má finna í Biblíunni og trúarlegum textum og í óáþreifanlegum orðum Guðs. Það er auðveldara að skilja það að orð Guðs getum við nálgast með því að lesa okkur til en það er aðeins erfiðara að skilja að orð Guðs berst okkur, á öllum tímum, í gegnum augu okkar og eyru. Okkar hlutverk er að skynja það góða í lífi okkar, meðtaka leiðsögn Guðs sem kemur úr öllum áttum. Síðan þegar við höfum meðtekið, skilið, áttað okkur á því, hvernig við getum gert líf okkar betra þá er það okkar hlutverk að opna munn okkar og segja öðrum frá því með orðum og/eða skrifum. Þannig bæði þiggjum við og gefum af okkur.

Þetta er hið lifandi orð sem er tákn um lifandi Krist. Jesús Kristur fæddist fyrir 2012 árum síðan og ennþá lifa orð hans, orð Guðs. Hversvegna er það? Það er vegna þess að þau eru sannleikurinn og sannleikurinn getur aldrei verið falið eða gleymst. Þess vegna lifir orð Guðs mann fram af manni, kynslóð fram af kynslóð og í árþúsundir. Það sem er falskt, það sem er ekki satt og rétt, "deyr" hinsvegar - gleymist, fellur í gleymsku.
Þannig virkar lífið.

Orð Guðs, það sem kennt er í biblíunni og víðar, lifir, er á sífelldu flæði milli fólks og milli kynslóða. Það er eins og fallegur foss sem fellur niður á eina syllu, staldrar þar aðeins við og fellur síðan áfram niður á næstu syllu. Vatn sem er á sífelldri hreyfingu.  Því að vatn sem stoppar rotnar og ekkert líf verður áfram í því og ekkert líf getur þrifist í því.

Ekkert þrífst án lifandi vatns, án þess að lifa eftir orði Guðs. Þess vegna er það að Jesús Kristur kom til okkar til þess að kenna okkur hvernig við getum með Guðsótta og góðum siðum nærst á boðskap Guðs til að öðlast eilíft líf sálar okkar.

Guðsótti þýðir að virða Guð - virða hann sem skapara okkar - þakka honum, sýna honum virðingu og þakklæti fyrir líf okkar en það gerum við með því að fara eftir því sem hann hefur kennt okkur. En það er hægt að læra í Biblíunni og fjölmörgum textum sem vitna til hennar.

Góðir siðir eru einnig kenndir í Biblíunni en þeir eru meðal annars boðorðin tíu, góð gildi og dyggðir. Biblían er kennslugagn yfir það hvernig við getum haft líf okkar þannig að við getum átt sem best líf og að sál okkar eigi möguleika á því að öðlast, að loknum líkamsdauða, eilíft líf.





Friday, October 12, 2012

Maðurinn spurði prestinn: "Hvar er Guð?"

Presturinn svaraði: "Guð er í öllum sem vilja taka á móti honum."

Guð er allsstaðar. Guð er í okkur en það er okkar hlutverk að "vekja hann upp" í okkur, opna hjarta okkar fyrir honum, og leyfa honum að hafa áhrif í lífi okkar.


Thursday, October 11, 2012

"Þegar þér leitið mín af öllu hjarta læt ég yður finna mig" segir í Biblíunni.

Þetta þýðir að ef við höfum einlægann vilja til þess að finna Guð þá mun hann láta okkur finna sig. Þetta getum við gert með því að biðja hann á einlægann hátt, setja fram ósk, upphátt eða í huga okkar, um nærveru hans á hugleiðslustundum, á kyrrðarstundum eða í þeim verkum sem við erum að sinna hverju sinni.

Síðan er það okkar að hafa augu og eyru opin, skynja hvernig hann kemur inn í líf okkar, leiðbeinir okkur við okkar daglegu störf  og í verkefnum okkar hver sem þau eru.

Guð getur komið á svo marga vegu inn í líf okkar en oft gerist það þannig að annað fólk leiðbeinir okkur eða veitir okkur aðstoð, við fáum betri hugmyndir að úrlausn verkefna, við sjáum hið rétta í stöðunni og svo má áfram telja.

Síðan þegar við smám saman fullvissum okkur um að við séum aldrei ein og getum ávallt leitað til Guðs er það þessi fullvissa sem með tímanum gefur okkur meira öryggi um að allt sé nákvæmlega eins og það eigi að vera, veitir okkur sífellt dýpri innri ró og gefur okkur í heildina innihaldsríkara líf.

Þetta er það sem kallað er að lifa með Guði og að hafa Guð í lífi okkar.




Wednesday, October 10, 2012

Loksins er komið í loftið vefsvæði með heitinu sjá og heyra. Dreymdi þann 18.október árið 2011 að ég ætti að setja upp vefsvæði með því heiti og mér tókst að koma því í verk í dag, 10.október 2012, rétt tæplega ári eftir drauminn!  Þann 18.október 2011 vissi ég að Guð hafði snert hjarta mitt því ég fann snertingu hans, eins og hendi kæmi bókstaflega við hjartað mitt, og ég skynjaði nærveru hans. Veit ég hefði átt að sjá og heyra, eða öllu heldur meðtaka fyrr þau skilaboð að setja upp vefsvæðið, en ég er sífellt að komast í betri æfingu við að meðtaka skilaboð frá Guði.

Það er nefnilega þannig að þegar Guð hefur sent okkur skilaboðið koma þau aftur og aftur, sífellt, til okkar, upp í huga okkar eða við skynjum þau í gegnum sál okkar eða skilaboð úr umhverfinu, þangað til við meðtökum þau með því að bregðast við þeim!

Þessi vefur er hugsaður til þess að koma á framfæri boðskap Guðs og veita aðstoð við að skynja, skilja og meðtaka betur hans skilaboð til okkar.

Opnið huga, hjarta og sál ykkar, takið á móti og njótið Guðsgjafa
Með kærleikskveðju
María Jónasdóttir



Tengsl eru við heimasíðuna http://www.allir.is
Tengsl eru við bloggsíðuna http://www.seeandheargod.blogspot.com
Tengsl eru við bloggsíðuna http://www.mariasfoundationiceland.blogspot.com
Tengsl eru við bloggsíðuna http://www.heilunarmidstodin.blogspot.com