Thursday, October 11, 2012

"Þegar þér leitið mín af öllu hjarta læt ég yður finna mig" segir í Biblíunni.

Þetta þýðir að ef við höfum einlægann vilja til þess að finna Guð þá mun hann láta okkur finna sig. Þetta getum við gert með því að biðja hann á einlægann hátt, setja fram ósk, upphátt eða í huga okkar, um nærveru hans á hugleiðslustundum, á kyrrðarstundum eða í þeim verkum sem við erum að sinna hverju sinni.

Síðan er það okkar að hafa augu og eyru opin, skynja hvernig hann kemur inn í líf okkar, leiðbeinir okkur við okkar daglegu störf  og í verkefnum okkar hver sem þau eru.

Guð getur komið á svo marga vegu inn í líf okkar en oft gerist það þannig að annað fólk leiðbeinir okkur eða veitir okkur aðstoð, við fáum betri hugmyndir að úrlausn verkefna, við sjáum hið rétta í stöðunni og svo má áfram telja.

Síðan þegar við smám saman fullvissum okkur um að við séum aldrei ein og getum ávallt leitað til Guðs er það þessi fullvissa sem með tímanum gefur okkur meira öryggi um að allt sé nákvæmlega eins og það eigi að vera, veitir okkur sífellt dýpri innri ró og gefur okkur í heildina innihaldsríkara líf.

Þetta er það sem kallað er að lifa með Guði og að hafa Guð í lífi okkar.




No comments:

Post a Comment