Sunday, October 14, 2012


Hvað er lífið okkar?

Í síðustu kvöldmáltíð Jesús Krists með lærisveinum sínum þá brýtur Jesús brauðið sem hann er með niður og bíður lærisveinunum að neyta þess, sem líkama síns.

Þarna var Jesús að bjóða þeim að borða næringu sem kom frá jörðinni, kornmeti jarðar, en jörðin er í raun líkami Guðs og þar með líkami Jesús eins og hann orðar það hér fyrir ofan.

Þessi athöfn Jesús Krists og þessi áþreifanlega næring, brauðið, er táknuð í altarisgöngum í kristnum kirkjum þegar kirkjugestum er boðin obláta, tákn brauðsins, til að setja í munn sinn.

Eftir að hafa boðið lærisveinum brauð lífsins - líkama krists, þá bauð hann þeim að drekka úr bikar sínum og sagði við þá að það væri blóð sitt. Þarna er um að ræða blóð Guðs, sem táknrænt er sett fram sem blóð í líkama Krists. En allt sem rennur, vatn, blóðið í æðum okkar, er tákn um blóðs Krists. Blóð Krists er þannig vatn jarðar, vatnið í jörðinni, það sem flýtur, flæðir og hreyfist. Vatnið er óáþreifanlegt þó við getum snert það þá "höldum við því ekki" í þeim skilningi, heldur rennur það á milli fingra okkar.

Hvoru tveggja sem Jesús Kristur gaf lærisveinum sínum með þessum táknræna hætti er nauðsynlegt lífi okkar; bæði áþreifanlega brauðið sem jörðin gefur og óáþreifanlega vatnið sem er okkur lífsnauðsynlegt. Þetta er okkar líkamsnæring því ef við hefðum ekki hvorutveggja gætum við ekki lifað.

Ofangreind skilgreining er okkur nauðsynleg til að lifa, svo að líkami okkar lifi en til þess að lifa innihaldslegu góðu lífi þá þurfum við einnig andlega næringu. Því við getum í raun og veru ekki lifað góðu lífi án andlegrar næringar. Við býðst að nærast á skriflegum áþreifanlegum orðum Guðs sem má finna í Biblíunni og trúarlegum textum og í óáþreifanlegum orðum Guðs. Það er auðveldara að skilja það að orð Guðs getum við nálgast með því að lesa okkur til en það er aðeins erfiðara að skilja að orð Guðs berst okkur, á öllum tímum, í gegnum augu okkar og eyru. Okkar hlutverk er að skynja það góða í lífi okkar, meðtaka leiðsögn Guðs sem kemur úr öllum áttum. Síðan þegar við höfum meðtekið, skilið, áttað okkur á því, hvernig við getum gert líf okkar betra þá er það okkar hlutverk að opna munn okkar og segja öðrum frá því með orðum og/eða skrifum. Þannig bæði þiggjum við og gefum af okkur.

Þetta er hið lifandi orð sem er tákn um lifandi Krist. Jesús Kristur fæddist fyrir 2012 árum síðan og ennþá lifa orð hans, orð Guðs. Hversvegna er það? Það er vegna þess að þau eru sannleikurinn og sannleikurinn getur aldrei verið falið eða gleymst. Þess vegna lifir orð Guðs mann fram af manni, kynslóð fram af kynslóð og í árþúsundir. Það sem er falskt, það sem er ekki satt og rétt, "deyr" hinsvegar - gleymist, fellur í gleymsku.
Þannig virkar lífið.

Orð Guðs, það sem kennt er í biblíunni og víðar, lifir, er á sífelldu flæði milli fólks og milli kynslóða. Það er eins og fallegur foss sem fellur niður á eina syllu, staldrar þar aðeins við og fellur síðan áfram niður á næstu syllu. Vatn sem er á sífelldri hreyfingu.  Því að vatn sem stoppar rotnar og ekkert líf verður áfram í því og ekkert líf getur þrifist í því.

Ekkert þrífst án lifandi vatns, án þess að lifa eftir orði Guðs. Þess vegna er það að Jesús Kristur kom til okkar til þess að kenna okkur hvernig við getum með Guðsótta og góðum siðum nærst á boðskap Guðs til að öðlast eilíft líf sálar okkar.

Guðsótti þýðir að virða Guð - virða hann sem skapara okkar - þakka honum, sýna honum virðingu og þakklæti fyrir líf okkar en það gerum við með því að fara eftir því sem hann hefur kennt okkur. En það er hægt að læra í Biblíunni og fjölmörgum textum sem vitna til hennar.

Góðir siðir eru einnig kenndir í Biblíunni en þeir eru meðal annars boðorðin tíu, góð gildi og dyggðir. Biblían er kennslugagn yfir það hvernig við getum haft líf okkar þannig að við getum átt sem best líf og að sál okkar eigi möguleika á því að öðlast, að loknum líkamsdauða, eilíft líf.





No comments:

Post a Comment