Wednesday, October 31, 2012


Ást

Til að geta elskað aðra verðum við fyrst að elska okkur sjálf. Þá erum við ekki að tala um “sjálfselsku” og “eigingirni”, því það er sjálfsmiðað þar sem allt snýst um viðkomandi einstakling. Heldur erum við að tala um að bera virðingu fyrir okkur sjálfum. Með því að elska okkur eins og við erum, þá fyrst erum við orðin hæf til að sýna öðrum ást okkar.   

Ástin er oft táknuð með mynd af hjartanu. Hjartað er kjarni mannslíkamans. Þess vegna er kjarni manneskjunnar oft táknaður með mynd af hjarta. Ást er lífskjarni manneskjunnar. Til að hægt sé að nálgast hamingjuna þá er ást nauðsynleg. Allir þurfa á ást að halda. Þiggjum og gefum ást!

All you need is love.
Bítlarnir

Ástin og í raun allt annað birtist þannig að ef við tökum við ást þá gefum við ást. Ef við getum ekki tekið við ást þá getum við ekki gefið ást. Við getum æft okkur í því að gefa og þiggja ást og í raun getum við æft margt annað bara ef við erum meðvituð um að æfa okkur í því þangað til það verður ósjálfrátt í fari okkar.  

Gerðu venjulega hluti með óvenjumikilli ást.
                                                                                                                             Móðir Teresa 

Gefa og þiggja óskilyrta ást. Raunveruleg ást er ávallt óskilyrt, sem þýðir að ástin er ekki gefin með væntingum um að eitthvað sé gefið til baka eða gert fyrir þann sem gefur ástina. Það er engin krafa til þiggjanda ástarinnar frá gefanda ástarinnar. Gefandinn einfaldlega gefur ást, en krefst einskis til baka þó oft geti ástin verið endurgoldin með ást eða á einhvern annann hátt. 

Reynt  hefur verið að gera ástinni skil í óteljandi verkum skálda og listamanna í gegnum tíðina.   Alltaf þegar ástinni er ekki leyft að ráða för þá endar það með óhamingju og jafnvel ógæfu elskendanna. Dæmi er hægt að taka úr sögum á borð við Tristan og Ísold og Rómeó og Júlíu.   Ást fólks er ást fólks, enginn hefur rétt til að sundra ástföngnu fólki. Það er ekki í mannlegum mætti að hafa áhrif á skilyrðislausa ást. Ást og hamingja haldast oft í hendur. Ein besta leiðin til að gefa ást og njóta ástar er gagnkvæm umhyggja. Það er, að njóta umhyggju og gefa af sér umhyggju. Hamingjan kemur í gegnum ást; ást á ástvinum sínum, ást á mannkyninu og ást á lífinu og tilverunni. Það að elska að vera til og gefa af sér til tilverunnar er ein mesta ástin!


No comments:

Post a Comment